Lúðraþytur í Hörpu

Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur tónleika í Norðurljósum, Hörpu þriðjudaginn 18. mars kl. 20:00.

Þetta eru fimmtu og síðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni Lúðraþytur í Hörpu, sem lúðrasveitir af suðvesturhorni landsins hafa staðið fyrir í vetur. Lúðrasveitin verður ekki ein á ferð, því hún hefur fengið Flensborgarkórinn til liðs við sig, undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg, og mun kórinn syngja nokkur lög með lúðrasveitinni.

Á efnisskrá tónleikanna verða nýleg lúðrasveitaverk fyrirferðarmikil. Má þar meðal annars nefna verkin Suite Arktica II eftir Pál Pampichler Pálsson og Sleep eftir Eric Whitacre. Einnig verða leiknir hefðbundnir Sousa-marsar.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 2000 krónur. Miða á tónleikana má kaupa á vefsíðunni miði.is og á heimasíðu Hörpu.