Vetrarstarfið að hefjast

Vetrarstarf Lúðrasveitar Hafnarfjarðar hefst af fullum krafti mánudagskvöldið 5. september. Starfið verður með hefðbundnum hætti í vetur; með vikulegum æfingum, tónleikum að hausti og vori, tilfallandi æfingabúðum og innansveitarfögnuðum. Einnig er stefnt að tónleikaferð næsta sumar.

Lúðrasveitin er skipuð um 25 félögum á öllum aldri, en alltaf er rúm fyrir nýja félaga – eða gamla félaga sem vilja dusta rykið af lúðrunum. Klarinettu- og slagverksleikarar eru sérstaklega velkomnir.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar æfir í Tónkvísl, íþróttahúsinu við gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði, öll mánudagskvöld milli klukkan 20:00 og 22:00. Stjórnandi lúðrasveitarinnar er Rúnar Óskarsson, klarinettuleikari.

Sjómannadagurinn

Að vanda mun lúðrasveitin halda uppi stuðinu á Sjómannadaginn, sunnudaginn 5. júní. Við spilum ættjarðarlög við Hrafnistu klukkan 10 og við höfnina klukkan 14, þegar aldnir sjómenn verða heiðraðir.

Æfing og búningamátun fyrir sjómannadaginn verður haldin í Tónkvísl mánudaginn 30. maí klukkan 20. Þeir sem eru með búning heima mega gjarna hafa hann með sér á æfinguna til skrásetningar.

Páskafrí!

Eftir stórskemmtilega vortónleika síðasta föstudag er lúðrasveitin komin í páskafrí en starfinu í vor er þó hvergi nærri lokið.
Næsta æfing verður í Tónkvísl miðvikudaginn 27. apríl (4. í páskum) kl. 20:00 en þá verður rykið dustað af marsabókunum og lýrunum fyrir kröfugönguna 1. maí en þar fer lúðrasveitin að vanda næstfremst í fylkingu (Siggi T. verður auðvitað fyrstur með rauða fánann).

Fyrsta æfing 2011

Fyrsta æfing LH á nýju ári verður mánudaginn 10. janúar kl. 20:00 í Tónkvísl.

Allir velkomnir!

Síðasta æfing ársins

Þá er komið að síðustu æfingu ársins. Hún verður haldin í Tónkvísl mánudaginn 6. desember kl. 20:00. Æft verður fyrir spilamennsku í Jólaþorpinu á Thorsplani laugardaginn 11. desember kl. 14. Að henni lokinni verður kakó og piparkökur í Tónkvísl að vanda.

Tréblásarar og slagverk fá frí við jólatréð vegna veðurs en eru að sjálfsögðu velkomnir í piparkökurnar.

Tónleikar

Lúðrasveitar Hafnafjarðar heldur tónleika í Víðistaðakirkju laugardaginn 27. nóvember næstkomandi. Á dagskrá er blönduð lúðrasveitartónlist.

Einleikur á básúnu: Stefán Ómar Jakobsson
Stjórnandi: Rúnar Óskarsson

Aðgangseyrir kr. 1000.