Lúðrasveit Hafnarfjarðar

Lúðrasveit Hafnarfjarðar var stofnuð í janúar 1950 og fagnaði því 65 ára afmæli sínu árið 2015. Sveitina skipa um 35 blásarar og slagverksmenn, á aldrinum frá sextán ára fram yfir sjötugt.

Starfsár sveitarinnar hefst í byjrun september og stendur yfirleitt fram í júní. Lúðrasveitin heldur að jafnaði tvenna tónleika á ári, auk þess að spila fyrir Hafnarfjarðarbæ og fleiri við hátíðleg tækifæri, til dæmis 17. júní, sjómannadaginn, 1. maí og þegar ljósin eru tendruð á jólatrénu á Thorsplani.

Tónleika- og æfingaferðir hafa einnig verið hluti af starfseminni í gegnum árin. Reglulega fer sveitin í æfingabúðir yfir eina helgi, þar sem smáatriði eru fínpússuð fyrir tónleika og hópurinn hristur saman.

Af tónleikaferðum er helst að nefna landsmót Sambands íslenskra lúðrasveita, en lúðrasveitin hefur hefur tekið þátt í starfsemi sambandsins frá upphafi. Vorið 2012 var farið í heimsókn til Vestmannaeyja. Sveitin hefur farið í fimm utanlandsferðir; til Þýskalands og Austurríkis árin 1971, 1974, 1985 og 2000 og til Hollands og Belgíu árið 2014.

Lúðrasveitin æfir í Tónkvísl, íþróttahúsinu við gamla Lækjarskóla, á mánudagskvöldum klukkan 20:00. Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Stjórn lúðrasveitarinnar skipa: Brynjar Óskarsson, formaður; Finnbogi Óskarsson, gjaldkeri og Atli Týr Ægisson, ritari.