Lúðrasveitir í Hafnarfirði

1. lúðrasveitin

Nálægt 1890 mun það hafa verið, að fyrst var stofnað til lúðrablásturs hér í Hafnarfirði. Frumkvöðull að þessari nýbreytni mun hafa verið Jón kaupmaður Bjarnason. Hann var mikill unnandi hljómlistar. Lék meðal annars á orgel, harmóníum og fiðlu. Sveit þessa skipuðu fimm menn og voru það þessir: Jón Bjarnason, kaupmaður, Árni Jónsson, sonur hans, síðar kaupmaður í Reykjavík, Eyjólfur Illugason, járnsmiður, og Hafliði Jónsson, verzlunarmaður á Ófriðarstöðum.

Sveit þessi lék á tvö kornett, eitt althorn, einn tenór og eina túbu. Hvernig menn skiptust á hljóðfærin er ekki vitað.

Þess minnast gamlir Hafnfirðingar, að hafa heyrt í sveit þessari við ýmis hátíðleg tækifæri, svo og við álfadans og brennur á gamlárskvöld og þrettánda. 1895 mun þessi sveit hafa hætt starfsemi. Þá fluttist Jón Bjarnason burt úr Firðinum til Reykjavíkur. Þar komst Árni í lúðrasveit, sem þá var starfandi þar.

2. lúðrasveitin

1908, þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi, bárust bæjarstjórn að gjöf nokkrir lúðrar. Kom gjöf þessi frá ónafngreindum velunnurum Hafnarfjarðar. Er ég ekki í neinum vafa um, að hér hafa verið að verki þeir Magnús Th. S. Blöndahl og Árni Jónsson – annar stofnandi Trésmíðaverksmiðjunnar Völundur og hinn starfsmaður þar.

Þetta varð til þess að haustið 1908 var hér stofnuð Lúðrasveit. Þeir, sem sveitina skipuðu upphaflega, voru: Árni Helgason, skósmíðanemi, 1. korenett; Einar Þórðarson, úrsmiður, 2. korenett; Karl Ólafsson, ljósmyndari, 3. korenett; Árni Þorsteinsson, trésmiður, althorn; Eyjólfur Illugason, 1. tenór; Helgi Valtýsson, kennari, 2. tenór; Elías Halldórsson, túbu; og Þórður Líndal, litlu trommu. Til er ágæt mynd af þessari lúðrasveit tekin upp við Lækjarbotna.

Lúðrasveit í Hafnarfirði 1908-1912
Lúðrasveit í Hafnarfirði 1908-1912. F. v.: Þórður Líndal, Karl Ólafsson, Eyjólfur Magnússon, Einar Þórðarson, Árni Helgason, Árni Þorsteinsson, Helgi Valtýsson og Elías Halldórsson.

Eins og hin fyrsta lúðrasveit lék sveit þessi við ýmis tækifæri, álfadansa og brennur. Þegar árið 1911 var kvatt og árinu 1912 heilsað, lék lúðrasveit þessi ýmis ættjarðarlög og nýárssálma. Þá var Salómon R. Heiðar kominn í sveitina og eitthvað annað hafði breytzt, nema Eyjólfur lék á tenórinn og Elías á túbuna.

3. lúðrasveitin

Síðla sumars 1923 gengust nokkrir menn fyrir stofnun lúðrasveitar í Hafnarfirði. Félag var formlega stofnað og mönnum smalað undir lúðrana. Er mér næst að halda að Þorvaldur heitinn Bjarnason, kaupmaður, hafi verið hér aðalhvatamaðurinn. Lúðrar þeir, sem hér höfðu verið, voru allir horfnir út í buskann. Leiðbeinandi var ráðinn Karl Ó. Runólfsson, fyrsti korenettisti í Lúðrasveit Reykjavíkur. Fyrir atbeina hans náðust saman það margir lúðrar, að sveitin mátti heita fullskipuð. En slæmir voru lúðrarnir, svo að hvorki kennarinn né nemandinn vissu hvað tónninn hét. Eftir að sveitin hafði starfað nálægt tvö ár réðst sveitin í að panta nýtt sett af lúðrum frá Þýzkalandi. Þegar æft hafði verið um stund með þessi glæsilegu hljóðfæri, var tekin ljósmynd af hópnum.

Eftirtaldir menn voru þá í sveitinni:

Guðlaugur Magnússon, gullsmiður, 1. korenett og sólóisti; Oddur Ívarsson, 1. korenett; Sigurður T. Sigurðsson, 2. korenett; Jón Snorri Guðmundsson, 3. korenett; Gísli Sigurðsson, 1. althorn; Stefán Thordersen, 2. althorn; Óskar Jónsson, 1. tenór og tenórsólóisti; Kristján Davíðsson 2. tenór, Jens Davíðsson, 3. tenór; Gunnar Jónsson, túbu; Theodór Guðmundsson, trommur, bæði minni og stærri. Upphaflega var Haraldur Sigurðsson, úrsmiður, með trommur. Seinna kom inn Jón Jónsson, Deild, lék á 2. tenór, Jón V. Hinriksson á 2. althorn og Pétur Einarsson lék á trompet. Gísli fékk sér valdhorn og Kristján Davíðsson fór að leika á klarinettu.

Eins og fyrr segir var Karl Ó. Runólfsson fyrsti kennarinn og stjórnandinn. 1925 sigldi hann til tónlistarnáms til Kaupmannahafnar. Þá réðist sem stjórnandi Hallgrímur Þorsteinsson, 1925 til 1926. Haustið 1926 tók svo Guðlaugur Magnússon við og stjórnaði fram yfir áramót. Þá tók aftur við sveitinni Karl Ó. Runólfsson. Hann var nú lærðari og miklu kröfuharðari. Hann var svo með sveitina fram á haust. – Fór þá til Akureyrar. – Leystist sveitin þá sundur.

Kristján Davíðsson dó um þetta leyti, en líklegastur hefði hann verið til að halda sveitinni gangandi. Ýmsir fluttust með öllu burt úr bænum.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar 1923-1927
Lúðrasveit Hafnarfjarðar 1923-1927. Fremri röð f. v.: Theodór Guðmundsson, Oddur Ívarsson, Guðlaugur Magnússon, Karl O. Runólfsson, sem var stjórnandi sveitarinnar tvö fyrstu árin, Sigurður T. Sigurðsson og Jón Snorri Guðmundsson. – Aftari röð: Gunnar E. Jónsson, Jens Davíðsson, Kristján Davíðsson, Óskar Jónsson, Stefán Thordarsen og Gísli Sigurðsson.

Sveitin lék fyrst á sýslumannstúninu á páskadag 1924 og þá einnig á Jónsmessuhátíðum Málfundafélagsins Magna. Á jólum og páskum lék sveitin ævinlega. Eftir að sveitin fór að fá styrk til starfsemi sinnar frá bænum, var styrkurinn veittur því aðeins, að sveitin léti til sín heyra einu sinni í mánuði.

Nokkrar ferðir fór sveitin, svo sem tvisvar til Keflavíkur, og einu sinni í hljómleikaferð til Stokkseyrar og Eyrarbakka og eina eða tvær ferðir að sumarlagi til óákveðinna staða. Þá lék sveitin oft fyrir dansi hjá ýmsum félögum, bæði að vetri til og sumri. Öll árin, sem hún var við líði, lék hún á útiskemmtunum félaga í bænum.

Viðfangsefnin voru víst ekki margbrotin. Ættjarðarlög, sálmar, valsar og marzar. Þá er mér einna minnisstæðasta viðfangsefnið Sie Beiden Grenadyr eftir Schumann.

Eftir að sveitin hætti, glötuðust flestir lúðrarnir, nema túban og valdhornið, sem enn eru til. – Maður á góðar minningar frá þessum tímum.

Gísli Sigurðsson.

(Greinin birtist í efnisskrá fyrir 20 ára afmælistónleika lúðrasveitarinnar, 31. janúar 1970)