Svona byrjaði þetta allt saman

Eftir Reyni Guðnason.

Þessi grein birtist í 50 ára afmælisblaði Lúðrasveitar Hafnarfjarðar, „Hugljúfir tónar í hálfa öld“, árið 2000.
Hér er hún óbreytt.

Mánudagskvöldið þann 13. desember 1949 komu nokkrir ungir menn saman í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði og ræddu um að stofna lúðrasveit í bænum. Þeir höfðu allir komið nálægt hljóðfæraleik og vissu að því myndu fylgja margvíslegir erfiðleikar að stofna lúðrasveit í bænum en einn þeirra, Friðþjófur Sigurðsson, hafði kannað vilja nokkurra af stjórnendum bæjarins til málsins og fengið jákvæðar undirtektir. Lúðrasveitin Svanur í Reykjavík hafði verið fengin til þess að leika fyrir bæjarbúa nokkrum sinnum á ári gegn því að fá árlegan styrk frá Hafnarfjarðarbæ og hafði fengist vilyrði fyrir því að þessi styrkur myndi renna til lúðrasveitar í Hafnarfirði væri hún til. Á þessum fundi voru þrír menn, Friðþjófur Sigurðsson, Magnús Randrup og Guðvarður Jónsson kosnir til þess að undirbúa stofnun sveitarinnar.

Þann 31. janúar 1950 var svo haldinn stofnfundur Lúðrasveitar Hafnarfjarðar í verkamannaskýlinu við höfnina þar sem bensínstöð Olís stendur nú. Ekki er tilgreint í fundargerð hverjir voru á fundinum en í fyrstu stjórnina voru þessir menn einróma kosnir: Friðþjófur Sigurðsson formaður, Guðvarður Jónsson gjaldkeri, Stefán Þorleifsson ritari og endurskoðendur Kristinn Sigurjónsson og Magnús Randrup.

Þetta var þó ekki fyrsta lúðrasveitin sem stofnuð var í Hafnarfirði því að heimildir benda til að frá 1890 til 1928 hafi verið starfandi a.m.k. þrjár lúðrasveitir í bænum en þær hættu starfsemi eftir mismunandi langan tíma og við stofnun Lúðrasveitar Hafnarfjarðar árið 1950 hafði ekki verið starfandi lúðrasveit í Hafnarfirði í meira en tuttugu ár.

Mikilvægi stjórnandans

Fyrsti stjórnandi lúðrasveitarinnar var Albert Klahn. Hann sinnti því starfi af dugnaði og gerði miklar kröfur til félaganna. Auk þess að stjórna sveitinni á æfingum og við hin ýmsu tækifæri þegar hún lék fyrir bæjarbúa annaðist hann útsetningar, kenndi byrjendum að blása í lúður, útvegaði hljóðfæri og nótur og lagði þannig grunn að starfsemi sveitarinnar sem hefur haldist óslitin síðan. Þegar Albert Klahn hætti störfum vegna heilsubrests var Jón Ásgeirsson, tónskáld, ráðinn stjórnandi og stjórnaði hann sveitininni í þrjú ár. Árið 1963 var Hans Ploder, fagottleikari í Sinfóníuhljómsveitinni, ráðinn stjórnandi og næstu áratugina tók lúðrasveitin miklum framförum og var um tíma meðal stærstu lúðrasveita á landinu. Hans stjórnaði sveitinni allt til ársins 1988 þegar núverandi stjórnandi, Stefán Ómar Jakobsson, tók við. Um það leyti var nokkur lægð í starfi sveitarinnar og mörg fyrstu árin undir stjórn Stefáns Ómars var tvísýnt hvort hún lognaðist út af en með samstilltu átaki stjórnandans og félaganna tókst að koma í veg fyrir það og undanfarin ár hefur hún óðum verið að braggast og framtíðin virðist vera nokkuð björt.

Fórnfúsir félagar

Lúðrasveitir eru félög áhugamanna um tónlist og hljóðfæraleik sem ekki verða til eða geta starfað nema félagarnir leggi af mörkum ómælda vinnu. Velgengnin ræðst af þeim aðstæðum og dugnaði sem ríkir í félaginu. Þar mæðir mest á þeim sem tekur að sér að vera formaður því að hann ásamt stjórnandanum hefur forystu í málefnum sveitarinnar á hverjum tíma. Fyrsti formaður Lúðrasveitar Hafnarfjarðar var Friðþjófur Sigurðsson. Aðrir formenn hafa verið:

Hörður Kristinsson, Magnús Randrup, Beinteinn Sigurðsson, Einar Sigurjónsson (alls 17 ár), Guðvarður Elíasson, Ævar Hjaltason, Brynjar Gunnarsson, Guðlaugur Atlason, Lárus Guðjónsson, Stefán Ómar Jakobsson, Þorleikur Jóhannesson, Sigurður E. Baldvinsson og núverandi formaður er Ásgeir Stefánsson. Þó að hér sé aðeins getið þeirra manna sem hafa verið stjórnendur eða formenn Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er rétt að minna á að mikill fjöldi einstaklinga skuldbindur sig til að mæta á æfingar reglulega og sinna kallinu þegar eitthvað er um að vera og lúðrasveitin er ráðin til að leika fyrir almenning.

Sumir þessara manna hafa starfað með sveitinni áratugum saman og verið sú kjölfesta sem nauðsynleg er til að halda starfinu áfram óslitið. Auk þess að æfa sig reglulega heima þurfa þeir að mæta á hverju starfsári á 40-50 æfingar og 15-20 sinnum þegar lúðrasveitin leikur opinberlega þannig að vinnuframlag hvers félaga er mikið. Sumir hafa ekki allan þennan tíma til ráðstöfunar og eru því mætingar eitt af eilífðarverkefnum stjórnarinnar. Í fundargerð frá fyrsta starfsári sveitarinnar má til dæmis lesa að stjórnandinn er óánægður með mætingar nokkurra manna og hótar að hætta verði ekki bót á! Það gerði hann ekki svo að menn hljóta að hafa tekið sig á!

Flottir búningar

Einkennisbúningar hafa löngum þótt ómissandi til að aðgreina tiltekna hópa frá öðrum og eru lúðrasveitir ekki undanskildar í því efni. Helstu vandkvæðin eru þau að búningar lúðrasveita eru oft skrautlegir og sérstaklega hannaðir og þess vegna fremur dýrir. Ekki var sveitin orðin gömul þegar menn áttuðu sig á því að nauðsynlegt væri að auðkenna hana því að strax í október 1950 var rætt um það á fundi að kaupa þyrfti einkennishúfur fyrir félagsmenn. Fjárhagurinn var ekki góður og var því samþykkt að hver maður borgaði sína húfu og yrði hún síðan endurgreidd þegar því yrði við komið. Lengi vel var húfan látin duga en árið 1967 var hinu langþráða takmarki náð að lúðrasveitin skartaði einkennisbúningi. Það tókst með stuðningi bæjarstjórnar sem ábyrgðist lán til greiðslu á kostnaðinum. Nýr búningur var síðan hannaður og tekinn í notkun árið 1991.

Engin minnimáttarkennd

Lúðrasveit Hafnarfjarðar hefur tekið þátt í starfi Sambands íslenskra lúðrasveita frá upphafi og sótt mörg þeirra landsmóta sem haldin hafa verið á vegum þess víða um land. Árið 1982 annaðist hún framkvæmd landsmótsins þegar það var haldið hér í Hafnarfirði.

Þrisvar sinnum, árin 1971, 1974 og 1985, hefur lúðrasveitin farið í hljómleikaferðir til meginlands Evrópu og framundan er fjórða Evrópuferðin í vor. Einnig hefur sveitin tvisvar sinnum tekið á móti lúðrasveitum frá Þýskalandi. Árið 1995 kom lúðrasveit frá Nottuln og árið eftir kom sveit frá Wingst. Þessar utanlandsferðir og heimsóknir hafa leitt í ljós að Lúðrasveit Hafnarfjarðar þarf ekki að hafa neina minnimáttarkennd gagnvart erlendum lúðrasveitum.

Fyrstu áratugina í sögu lúðrasveitarinnar þótti lúðrasveitatónlist fullboðlegt útvarpsefni. Voru gerðar margar upptökur með leik sveitarinnar fyrir ríkisútvarpið og í ferðum hennar erlendis og hún hefur einnig komið fram í sjónvarpi. Tvær hljómplötur með leik sveitarinnar voru gefnar út árin 1973 og 1975.

Árið 1986 var tekin upp sú nýbreytni í starfseminni að fara í æfingabúðir yfir eina helgi. Tilgangurinn var að bæta árangurinn á tónlistarsviðinu og efla kynni meðal félaga og fjölskyldna þeirra. Aðstaða fékkst í Ölfusborgum og þótti þetta hið besta framtak. Síðan hefur sveitin nokkrum sinnum farið í svipaðar ferðir með góðum árangri.

Með aukinni kunnáttu og færni hefur orðið nokkur breyting á verkefnavali lúðrasveitarinnar. Göngulög, oftast kölluð „marsar“ sem lúðrasveitir eru einkum þekktar fyrir vegna þátttöku í skrúðgöngum, hafa vikið fyrir æ fjölbreyttari tónlist. Þetta hefur m.a. komið fram í samstarfi lúðrasveitarinnar við ýmsa kóra og má nefna tónleika með Karlakórnum Þröstum 1995, Flensborgarkórnum 1997, þátttaka í kóramóti eldri borgara og tónleikunum sem kallaðir voru „Undir Hamrinum“ með Karlakórnum Þröstum og kvennakór og einsöngvurum í fyrra.

Lúðrar og menning

Hin hefðbundna starfsemi lúðrasveitarinnar hefur ekki breyst mikið á þessum 50 árum nema að því leyti að núna þarf ekki að kenna nýliðum hljóðfæraleik eins og í upphafi, heldur koma nýir félagar úr tónlistarskólum og skólalúðrasveitum með mikla kunnáttu og færni. Æfingar og tónleikar ásamt því að leika við ýmis tækifæri og hátíðahöld eru enn sem fyrr kjarninn í starfinu. Stjórnin þarf að finna lausnir á húsnæðismálum og peninga fyrir hljóðfærum, nótum, einkennisbúningum og öðru því sem rekstur félagsins krefst. Hún þarf að efla félagsandann innan sveitarinnar og samstöðuna um góðan tónlistarflutning.

Þá hafa konur látið til sín taka en lúðrablástur og bumbusláttur þótti ekki vera við hæfi kvenna lengi vel. Það er ekki fyrr en á aðalfundi árið 1968 sem fyrstu konurnar eru kosnar í stjórn Lúðrasveitar Hafnarfjarðar en þær voru Anna Ólafsdóttir og Lilja Finnbogadóttir. Síðan hefur þátttaka kvenna verið að aukast mjög en þær endast ekki eins lengi og karlarnir hvernig svo sem á því stendur.

Stuðningur bæjarstjórnar á hverjum tíma er áhugamannafélögum mikils virði og hefur Lúðrasveit Hafnarfjarðar átt góðan bakhjarl í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem hefur veitt styrki til starfseminnar í þessi 50 ár og stutt hana á ýmsa lund. Einnig fer vaxandi samstarf sveitarinnar við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem kemur m.a. fram í því að hún æfir nú í húsnæði skólans.

Fjölbreytt menning er hverju bæjarfélagi nauðsynleg og lúðrasveit er hluti af henni. Lúðrasveitin gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þá sem hafa áhuga á að leika á blásturshljóðfæri og slagverk og margir hafa náð langt í tónlistariðkun sinni þar sem reynslan úr lúðrasveitinni hefur komið í góðar þarfir. Hún gefur unglingum sem stundað hafa nám í tónlistarskóla tækifæri til að fást við fjölbreytt viðfangsefni eftir að veru þeirra í skólalúðrasveitinni lýkur og er þannig mikilvægur hluti af æskulýðsstarfinu í bænum. Lúðrasveitin er einnig góður vettvangur til að brúa kynslóðabilið því að löngum hefur verið áratuga aldursmunur á yngstu og elstu félögum hennar. Það hefur ávallt verið góð samastaða félaga í lúðrasveitinni um farsæld í starfi hennar og vonandi verður það svo um langa framtíð.

Greinarhöfundur starfaði með lúðrasveit Hafnarfjarðar á árunum 1970-1998, lék lengst af á básúnu og kenndi um árabil á málmblásturshljóðfæri og slagverk við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar auk þess að stjórna skólahljómsveit tónlistarskólans um skeið.