Vetrarstarfið að hefjast

Vetrarstarf Lúðrasveitar Hafnarfjarðar hefst af fullum krafti mánudagskvöldið 5. september. Starfið verður með hefðbundnum hætti í vetur; með vikulegum æfingum, tónleikum að hausti og vori, tilfallandi æfingabúðum og innansveitarfögnuðum. Einnig er stefnt að tónleikaferð næsta sumar.

Lúðrasveitin er skipuð um 25 félögum á öllum aldri, en alltaf er rúm fyrir nýja félaga – eða gamla félaga sem vilja dusta rykið af lúðrunum. Klarinettu- og slagverksleikarar eru sérstaklega velkomnir.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar æfir í Tónkvísl, íþróttahúsinu við gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði, öll mánudagskvöld milli klukkan 20:00 og 22:00. Stjórnandi lúðrasveitarinnar er Rúnar Óskarsson, klarinettuleikari.