Lúðrasveit Hafnarfjarðar (20 ára)

Um þessar mundir eru liðin 20 ár síðan þrír músíkunnendur hér í bæ komu saman til skrafs og ráðagerða í því augnamiði að athuga möguleika á að stofna hér lúðrasveit. Niðurstaðan af ráðstefnu þessari varð sú, að þeir komu að máli við fleiri, sem líklegir væru til að leggja þessu máli lið. Það er ekki að orðlengja að þeir hrintu þessari ágætu hugmynd í framkvæmd á stofnfundi 31. janúar 1950. – Lúðrasveit Hafnarfjarðar var stofnuð. Stofnendurnir voru allstór hópur áhugamanna um þessi mál, en var að heita má með tvær hendur tómar til þeirra hluta, en áhuginn var aftur á móti í ríkum mæli.

Það þurfti hljóðfæri, stjórnanda, húsnæði og peninga. Nokkrir félaganna höfðu um árabil spilað við ýmiss konar mannfagnað, og áttu því hljóðfæri, sem nú komu í góðar þarfir. Auk þess var eitthvað til af hljóðfærum frá því að síðasta lúðrasveit starfaði hér. Þau voru nú dregin fram í dagsljósið frá geymsluloftum og skúmaskotum, dubbuð upp og lappað upp á þau, sem með þurfti, til að vera nothæf. Í millitíðinni var fengið loforð fyrir húsnæði, sem forráðamenn Verkamannaskýlisins vildu leggja til, og þar höfum við lengst af verið. En seinna fengum við æfingapláss á Ráðhúsloftinu, og nokkur ár í Skátaskálanum við Strandgötu. Hinn ágæti hljómlistarmaður, Albert heitinn Klahn, sem um nokkurt skeið hafði verið stjórnandi Lúðrasveitar Reykjavíkur, gaf fúslega kost á sér til að koma hinni nýstofnuðu lúðrasveit af stað. Og svo hófust æfingar, og var nú æft af lífi og sál, bæði gamalgrónir marzar, þjóðlög o. fl.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar stendur í mikilli þakkarskuld við Albert Klahn, þann ágæta mann. Hann byggði sveitina upp af elju og dugnaði, æfði þolinmóður lítt vana menn, kenndi byrjendum, kom með nótur, bæði frá sjálfum sér og sem hann gat útvegað, og raddsetti mikið af íslenzkum þjóðlögum. Og ekki nóg með það, heldur kom hann með úr næstu ferð sinni til Þýzkalands talsvert af dýrmætum hljóðfærum, sem þá fengust alls ekki hér, enda ekki peningar fyrir hendi til slíkra kaupa. Það er ekki of mikið sagt að Albert heitinn Klahn hafi borið lúðrasveitina á höndum sér, stjórnað og hlúð að henni í 12 ár, eða þar til hann lagðist banaleguna. Það var lagður traustur og góður grundvöllur að Lúðrasveit Hafnarfjarðar, sem hún hefur búið að síðan.

Þegar þessa ágæta manns naut ekki lengur við, varð Jón Ásgeirsson stjórnandi hennar. Jón er landskunnur fyrir söngmennt og söngstjórn. Þegar hann lét af störfum sem stjórnandi, eftir þriggja ára starf, heppnaðist sveitinni að fá vel metinn hljómlistarmann, Hans Ploder Franzson, sem stjórnanda. Ploder er fastur starfsmaður við Synfóníuhljómsveit Íslands, en hefur þó gefið sér tíma til að sinna okkar lúðrasveit, og hefur hún dafnað og þroskazt undir hans stjórn síðastliðin fimm ár.

Þegar á árunum sem Klahn heitinn var með sveitina, gafst okkur kostur á að leika í Ríkisútvarpið fjórum sinnum, og einu sinni af stálþræði, sem leikið var inn á annars staðar. En nú síðustu árin höfum við leikið þar einu sinni til tvisvar á ári, og nú í sumar einu sinni í sjónvarpið. Hefur þetta verið talsverð uppörfun fyrir sveitina.

Fyrsti formaður sveitarinnar var Friðþjófur Sigurðsson, en eftir nokkurra ára ágæta forystu lét hann af því starfi, en Hörður heitinn Kristinsson tók við. Síðan hafa eftirtaldir verið formenn: Einar Sigurjónsson, Magnús Randrup, Guðvarður Elíasson, Ævar Hjaltason, Brynjar Gunnarsson og nú aftur Einar Sigurjónsson, sem hefur um 8 ára skeið gegnt formannsstörfum, og kann sveitin honum beztu þakkir fyrir hans ágæta starf í þágu hennar.

Sumir af stofnendunum hafa nú látið af störfum vegna breyttra aðstæðna, ýmist flutzt úr bænum, eða vegna atvinnu sinnar. Það hefur því á köflum verið fremur fáliðað, en nú síðustu þrjú árin hefur okkur borizt í hendur álitlegur hópur af ungu fólki, þar af tvær prýðis góðar og efnilegar stúlkur, sem að vonum eru okkur öllum til gleði og yndisauka. Þessi glæsilegi hópur af ungu fólki hefur heldur betur hresst upp á félagsskapinn.

Fyrstu árin var fjárhagurinn fremur bágborinn á stundum og því lítið aflögu til þess að endurnýja hljóðfærakostinn. En ráðamenn bæjarins hafa frá fyrstu tíð sýnt lúðrasveitinni drengilegan skilning og hjálpað henni yfir margan erfiðan hjallann í fjárhagslegu tilliti. Ef svo hefði ekki verið, væri hún ekki starfandi í dag. Okkur er skylt að þakka bæjarstjórn Hafnarfjarðar alla þá miklu aðstoð, sem lúðrasveitin hefur orðið aðnjótandi á þessum tuttugu árum, sem að baki eru.

Ef segja ætti söguna alla – og draga fram allt, sem skeð hefur og tengt okkur sterkum böndum, við æfingar og lúðrablástur á opinberum vettvangi, við sorgar- og gleðiathafnir, við hátíðasamkomur, við skrúðgöngur, við kosningar og við sjúkrahús – þá yrði það of langt mál.

Að lokum þetta: Við erum í dag 20 manns – meiri hlutinn ungt fólk – sem æfum í lúðrasveitinni, flestir á góð hljóðfæri undir góðri og öruggri stjórn, og lítum því björtum augum til framtíðarinnar varðandi hag okkar kæru lúðrasveitar.

3. janúar 1970.
Eiríkur Jóhannesson

(Greinin birtist í efnisskrá fyrir 20 ára afmælistónleika lúðrasveitarinnar, 31. janúar 1970).