Lúðrasveitin Svanur og Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Hörpu

Ágætu marsaunnendur og aðrir smekksmenn og konur á góða tónlist!

Næstkomandi laugardag, þann 27. október, munu Lúðrasveitin Svanur og Lúðrasveit Hafnarfjarðar leiða saman hesta sína og halda tónleika í Hörpu þar sem takfesta, tónfrelsi og taumlaus orka í tveimur fjórðu ráða ferðinni. Talið verður í kl. 16 og er aðgangur ókeypis.

Leiknir verða hefðbundnir marsar af hefðbundinni snilld í bland við þjóðlagatónlist hinna ýmsu landa fyrr og nú, allt frá dillandi Klezmertónum til séríslenskra þjóðlaga úr kvæðasafni Stuðmanna. Einnig munu stjórnendur hvorrar hljómsveitar um sig, Brjánn Ingason og Rúnar Óskarsson, leika einleik á fagott og klarinett, svo það verður úr nógu að velja á þessu hlaðborði góðrar tónlistar sem uppá verður boðið.

Tónleikarnir munu fara fram í Hörpuhorninu svokallaða á 2. hæð hússins, og eins og fram kom hér að ofan verður blásið til leiks kl. 16. Aðgangur er ókeypis og allir boðnir hjartanlega velkomnir.

Misstu ekki af mörsunum!

Lúðrasveitin Svanur & Lúðrasveit Hafnarfjarðar