Sumarfrí

Sautjándi júní er þá búinn, með öllum sínum skrúðgöngum og tónleikum. Og þar með er Lúðrasveitin farin í sumarfrí.

Við förum aftur á stjá með hausti og lækkandi sól, í lok ágúst eða í byrjun september.

Takk fyrir veturinn!

Hæ, hó, jibbý-jei!

Það er kominn sautjándi júní.

Eins og venjulega spilar Lúðrasveitin í skrúðgöngu í Hafnarfirði í dag. Gangan leggur af stað frá Flensborgarskólanum klukkan 13:00.

Að lokinni göngu leikum við svo nokkur létt sumarlög á tónleikum fyrir utan Byggðasafn Hafnarfjarðar og A. Hansen. Tónleikarnir hefjast klukkan 14:00.

Ýmislegt fleira verður að gerast í bænum í tilefni dagsins. Áhugasöm geta kynnt sér dagskrána á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Það er kominn sautjándi júní!

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn er í dag, 2. júní.

Samkvæmt venju spilar Lúðrasveitin fyrir íbúa Hrafnistu í Hafnarfirði nú í morgunsárið, kl. 10:00.

Eftir hádegi hefjast svo hátíðahöld við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Þar verða leikin nokkur lög á hátíðasvæðinu frá kl. 13:30 – 14:00.

Ýmislegt fleira verður á dagskránni. Áhugasöm geta kynnt sér dagskrána á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Hæ, hó, jibbí-jey!

Það er kominn sautjándi júní!

Þjóðhátíðardagurinn er einn af föstum punktum Lúðrasveitarinnar ár hvert og í ár verður ekki gerð nein undantekning.

Klukkan 12:45 verður safnast saman fyrir utan Flensborgarskólann. Skrúðganga leggur svo af stað frá skólanum klukkan 13:00. Gengið verður niður Hringbraut, eftir Lækjargötu og inn Strandgötu að Thorsplani.

Að göngu lokinni, eða um kl. 14:00, heldur Lúðrasveitin svo tónleika fyrir utan Hafnarborg.

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá þjóðhátíðarhalda í Hafnarfirði á vef bæjarins.

Jólin koma

Jólin eru handan við hornið og brassdeild Lúðrasveitarinnar sér um að koma Hafnfirðingum og nærsveitungum í jólaskap fyrstu helgina í desember.

Föstudaginn 30. nóvember verður Jólaþorpið opnað á Thorsplani í Hafnarfirði og kveikt á ljósunum á jólatrénu frá Cuxhaven. Lúðrasveitin leikur nokkur létt jólalög kl. 18:00. Nánari dagskrá má nálgast á vef Hafnarfjarðarbæjar og á Facebook.

Laugardaginn 1. desember klukkan 17:00 verða ljósin tendruð á Hamborgartrénu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Þar verða leikin nokkur vinsæl þýsk jólalög fyrir athöfnina og á milli ræðuhalda.

Sunnudaginn 2. desember klukkan 12:00 koma svo nokkrir félagar úr Lúðrasveitinni fram á jóladagskrá í Hafnarborg. Dagskráin er skipulögð af Fjarðarpóstinum og Hafnarfjarðarbæ og má fylgjast með henni í beinni útsendingu á Facebook-síðum skipuleggjenda.