Aðventutónleikar lúðrasveitarinnar

Lúðrasveitar Hafnarfjarðar heldur aðventutónleika í Víðistaðakirkju laugardaginn 30. nóvember kl. 14:00.

Á efnisskránni er meðal annars að finna svítu fyrir lúðrasveit eftir Gustav Holst, tvo kafla úr svítu fyrir sviðshljómsveit eftir Dmítríj Sjostakóvítsj og íslenskan jólaforleik eftir Sigurð I. Snorrason – auk hefðbundinna marsa.

Einleikarar á tónleikunum verða trompetleikarinn Andrés Björnsson sem leikur tangó eftir Astor Piazzola og hornleikarinn Erna Ómarsdóttir sem leikur rondókafla úr einum hornkonserta Mozarts. Auk þess stígur básúnudeildin á svið og leikur Lustige Polka eftir Hans Hartwig.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

LH á aðventutónleikum 1. desember 2012

Tendrun ljósa á jólatrjám

Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur við tendrun ljósa á tveimur jólatrjám laugardaginn 30. nóvember. Hið fyrra er Frederiksbergstréð á Thorsplani í Hafnarfirði klukkan 16:30 og svo Hamborgartréð við Reykjavíkurhöfn kl. 17:00.

Sama dag kl. 14 verða aðventutónleikar lúðrasveitarinnar haldnir í Víðistaðakirkju.

Oktoberfest Lúðrasveitar Hafnarfjarðar

Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur Oktoberfest á Enska barnum, Hafnarfirði, laugardaginn 12. október. Þar verða fluttir slagarar úr grænu möppu LH, sem hefur að geyma það besta úr þýska bjórlitteratúrnum. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 20 og aðgangur er ókeypis.
Sjá auglýsingu hér.

Fyrsta æfing vetrarins

Fyrsta æfing starfsársins verður í Tónkvísl mánudagskvöldið 2. september klukkan 20:00. Vetrardagskráin, sem er fjölbreytt og spennandi, verður nánar kynnt á æfingunni. Allir gamlir og nýir félagar eru velkomnir – sérstaklega slagverksleikarar.

Landsmót SÍL í Þorlákshöfn

Landsmót SÍL verður haldið í Þorlákshöfn helgina 4.-6. október nk. Fyrirkomulagið er ekki með gamla sniðinu, þ.e. að hver sveit komi með tilbúið prógramm og spili á tónleikum heldur verður öllum þátttakendum blandað saman. Hópnum verður skipt í þrjár sveitir sem munu spila með mismunandi gestum, 200.000 Naglbítum, Jónasi Sigurðssyni og Fjallabræðrum. Æft verður á föstudagskvöldi og laugardegi og svo verða stórtónleikar á laugardagskvöldinu.

Kostnaður: 10.000 kr. á mann. Innifalið er gisting báðar næturnar, hádegismatur, síðdegissnarl og kvöldverður á laugardaginn og ball á laugardagskvöldið.

Skráning í tölvupósti (ludrasveit@ludrasveit.is) fyrir 1. september.

17. júní

Spilamennskan á 17. júní er loksins komin á hreint. Skrúðgangan leggur af stað frá Ásvöllum kl. 13:00 og við göngum niður á Thorsplan. Við spilum ekkert fyrir gönguna en hugsanlega eitthvað á Thorsplani. Ef vel viðrar og stemmningin býður upp á það spilum við líka á nokkrum stöðum í miðbænum eftir gönguna.

Klæðnaður: Fjólublár búningur og kaskeiti, svartir sokkar og svartir nýpússaðir spariskór. Þeir sem ekki hafa búning mæti í svörtum sparibuxum og LH-úlpu með kaskeiti.

Mæting á Ásvelli kl. 12:45 eða í Tónkvísl ekki seinna en 12:30. Húsið opnar kl. 12:00.