Aðventutónleikar 2016

Aðventutónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju laugardaginn 3. desember kl. 14:00.

Kvikmyndatónlist verður fyrirferðarmikil á efnisskránni, meðal annars tónlist eftir John Williams úr myndunum um Indiana Jones og Stjörnustríð, og einnig tónlist Jóhanns Jóhannssonar úr kvikmyndinni The theory of everything. Að auki verða flutt verk eftir James Curnow, Robert Buckley, John Philip Sousa og fleiri. Þá munu einhver jólalög slæðast með.

Á tónleikunum mun Stefán Ólafur Ólafsson klarinettuleikari stíga fram og blása stefið úr Lista Schindlers.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 1500 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir 16 ára og yngri. Miða má nálgast í forsölu hjá lúðrasveitarfélögum fram að tónleikadegi og við innganginn þegar þar að kemur.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar fyrir utan Víðistaðakirkju 29. nóvember 2014
Lúðrasveit Hafnarfjarðar

Októberfest

Laugardaginn 8. október næstkomandi heldur Lúðrasveit Hafnarfjarðar sitt árlega Oktoberfest á Ölstofu Hafnarfjarðar (áður Enski barinn).

Þar verða fluttir valdir slagarar úr hinni víðfrægu grænu möppu LH, en hún geymir það allra besta í þýskri bjórtónlist auk íslenskra gullmola í svipuðum stíl. Hér er einstakt tækifæri til að heyra tónlistina sem spiluð er á Oktoberfest í München ár hvert.

Stórsöngvarinn Örvar Már Kristinsson mætir á svæðið og syngur nokkur lög með okkur!

Aðgangur ókeypis.

Ljósanótt

Starfsemin er nú farin í gang að loknu sumarfríi.

Fyrsta framkoma lúðrasveitarinnar á þessu starfsári verður á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Þar tekur sveitin þátt í Árgangagöngunni laugardaginn 3. september.

Gangan leggur af stað klukkan 13:30 og gengið verður niður Hafnargötu í Reykjanesbæ.

Sautjándi júní

Samkvæmt venju verða hátíðarhöld í Hafnarfirði í dag, í tilefni þjóðhátíðardagsins.

Lúðrasveitin fer fyrir skrúðgöngu, sem leggur af stað frá Hamrinum klukkan 13:00. Gengið verður niður Hringbraut í átt að Læknum, beygt inn Lækjargötu og Strandgötu og endað á Thorsplani.

Að göngu lokinni verður svo komið við á Austurgötuhátíðinni, þar sem við leikum nokkur létt lög.

Nálgast má alla hátíðardagskrána á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn er í dag og mun lúðrasveitin að vanda taka þátt í gleðinni.

Klukkan 10:00 verða leikin nokkur lög fyrir utan Hrafnistu í Hafnarfirði.

Klukkan 13:50 komum við svo fram á hátíðardagskrá við Flensborgarhöfn.

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá sjómannadagsins nánar á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Kröfuganga

Samkvæmt venju mun Lúðrasveit Hafnarfjarðar spila í kröfugöngu verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði 1. maí.

Safnast verður saman fyrir utan ráðhús Hafnarfjarðar kl. 13:30, þar sem lúðrasveitin leikur nokkur létt lög.

Kröfugangan fer svo af stað kl. 14:00. Gengið verður að Flatahrauni 3 og verður komið þangað um kl. 14:30.