Jólafrí

Þá er lúðrasveitin komin í jólafrí. Við byrjum aftur mánudaginn 9. janúar kl. 20:00.

Jólatré bæjarins

Laugardaginn 26. nóvember verða ljósin tendruð á vinabæjartrjánum tveimur; kveikt verður á Cuxhaventrénu við Flensborgarbryggju kl. 14 og Frederiksbergstrénu á Thorsplani kl. 17. Lúðrasveitin spilar að vanda við báðar tendranirnar og 10-15 mínútur fyrir þær. Gert er ráð fyrir að málmblásararnir sjái um þetta, en tré og slagverk fái frí.

Þar sem frekar stutt er á milli þessa tveggja spilamennska kom upp sú hugmynd að spila á 2-3 stöðum í bænum milli kl. 14 og 17. Við munum því spila nokkur jólalög á völdum stöðum, t.d. Hrafnistu og Sólvangi.

Þeir sem hafa búning heima hjá sér mæti uppáklæddir í Tónkvísl kl. 13:15, þeir sem vantar búning mæti klukkan 13:00.

Bjórtónlist á Enska barnum

Föstudaginn 11. nóvember heldur Lúðrasveit Hafnarfjarðar síðbúið Oktoberfest á Enska barnum, Flatahrauni 5b í Hafnarfirði.

Þar verða fluttir valdir slagarar úr hinni víðfrægu grænu möppu LH, en hún geymir það allra besta í þýskri bjórtónlist auk íslenskra gullmola í svipuðum stíl. Hér er einstakt tækifæri til að heyra tónlistina sem spiluð er á Oktoberfest í München ár hvert.

Lúðrasveitin byrjar að spila um kl. 20:30 en á undan mun Enski barinn bjóða upp á létt snakk í þýskum anda með bjórnum. Það er því tilvalið að mæta tímanlega og hita aðeins upp áður en allt byrjar.

Vetrarstarfið að hefjast

Vetrarstarf Lúðrasveitar Hafnarfjarðar hefst af fullum krafti mánudagskvöldið 5. september. Starfið verður með hefðbundnum hætti í vetur; með vikulegum æfingum, tónleikum að hausti og vori, tilfallandi æfingabúðum og innansveitarfögnuðum. Einnig er stefnt að tónleikaferð næsta sumar.

Lúðrasveitin er skipuð um 25 félögum á öllum aldri, en alltaf er rúm fyrir nýja félaga – eða gamla félaga sem vilja dusta rykið af lúðrunum. Klarinettu- og slagverksleikarar eru sérstaklega velkomnir.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar æfir í Tónkvísl, íþróttahúsinu við gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði, öll mánudagskvöld milli klukkan 20:00 og 22:00. Stjórnandi lúðrasveitarinnar er Rúnar Óskarsson, klarinettuleikari.

17. júní

Á 17. júní spilum við fyrst fyrir framan sviðið í Hellisgerði kl. 13:25 og svo spilum við í skrúðgöngunni kl. 14:00. Þetta árið verður engin spilamennska um kvöldið vegna sparnaðaraðgerða hjá bænum.

Mæting í Tónkvísl kl. 13:00 fyrir þá sem eru nú þegar komnir með búning. Aðrir þurfa að mæta eitthvað fyrr til að finna sér búning sem passar þokkalega. Munið svarta sokka og svarta, pússaða skó. Húsið opnar kl. 12:30.

Sjómannadagurinn – mæting

Á Sjómannadagsmorgun er mæting við Hrafnistu kl. 9:45 í búningi, svörtum skóm og með hattinn. Nótur og statíf verða á staðnum. Þeir sem vantar búning eða hatt þurfa að mæta í Tónkvísl kl. 9:00 til að bjarga því sem bjargað verður.

Eftir hádegi er mæting við sviðið á Suðurbakkanum kl. 13:40, sömuleiðis í fullum skrúða. Nótur og statíf verða á staðnum. Tónkvísl verður opin kl. 13:00-13:30 til að dressa þá upp sem vantar búning.