Aðalfundur LH

Aðalfundur Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verður haldinn í Tónkvísl mánudaginn 28. janúar 2013 kl. 20:00. Dagskráin er svohljóðandi:

  • Skýrsla stjórnar
  • Lagabreytingar, ef skriflegar tillögur koma fram um þær fyrir fundinn.
  • Kjör stjórnar, tveggja endurskoðenda og annarra embættismanna ef við á.
  • Önnur mál.

Lagabreytingatillögur skal senda til stjórnar á netfangið ludrasveit@ludrasveit.is í síðasta lagi á miðnætti sunnudagsins 27. janúar. Þangað má líka senda tilkynningar um framboð í embætti eða tillögur að öðrum málum.

Gleðilegt ár!

Lúðrasveit Hafnarfjarðar óskar félögum og aðdáendum gleðilegs nýárs með þökk fyrir þau liðnu.

Jafnframt minnum við á að fyrsta æfing á nýju ári verður í Tónkvísl mánudaginn 7. janúar kl. 20. Þangað eru allir gamlir og nýir félagar velkomnir!

Aðventutónleikar LH

Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur aðventutónleika í Víðistaðakirkju laugardaginn 1. desember kl. 17.

Á dagskránni eru einkum þjóðdansar og þjóðlög úr ýmsum áttum en marsar og jólalög koma einnig við sögu. Þá mun Andrés Björnsson leika einleik á flügelhorn.

Almennt miðaverð er 1500 kr. en 500 kr. fyrir börn yngri en 12 ára.

Jólatrén í bænum

Laugardaginn 24. nóvember verða ljósin tendruð á Frederiksbergstrénu á Thorsplani kl. 17. Lúðrasveitin spilar að vanda við tendrunina, og byrjar að spila kl. 16:45. Þar sem spáir frekar köldu munu málmblásararnir sjá um þetta en tré- og slagverksleikarar fá frí.

Klæðnaður er að sjálfsögðu fjólublái búningurinn (föðurlandið innanundir) og svartir pússaðir skór. Mæting er í Tónkvísl kl. 16:15, þeir sem vantar búning mæti klukkan 16:00.

Kveikt verður á Cuxhaventrénu við Flensborgarbryggju viku síðar, laugardaginn 1. desember kl. 15:00. Þar sem þetta er tónleikadagurinn okkar munu aðeins 5-6 málmblásarar leika jólalög frá kl. 14:45.

Lúðrasveitin Svanur og Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Hörpu

Ágætu marsaunnendur og aðrir smekksmenn og konur á góða tónlist!

Næstkomandi laugardag, þann 27. október, munu Lúðrasveitin Svanur og Lúðrasveit Hafnarfjarðar leiða saman hesta sína og halda tónleika í Hörpu þar sem takfesta, tónfrelsi og taumlaus orka í tveimur fjórðu ráða ferðinni. Talið verður í kl. 16 og er aðgangur ókeypis.

Leiknir verða hefðbundnir marsar af hefðbundinni snilld í bland við þjóðlagatónlist hinna ýmsu landa fyrr og nú, allt frá dillandi Klezmertónum til séríslenskra þjóðlaga úr kvæðasafni Stuðmanna. Einnig munu stjórnendur hvorrar hljómsveitar um sig, Brjánn Ingason og Rúnar Óskarsson, leika einleik á fagott og klarinett, svo það verður úr nógu að velja á þessu hlaðborði góðrar tónlistar sem uppá verður boðið.

Tónleikarnir munu fara fram í Hörpuhorninu svokallaða á 2. hæð hússins, og eins og fram kom hér að ofan verður blásið til leiks kl. 16. Aðgangur er ókeypis og allir boðnir hjartanlega velkomnir.

Misstu ekki af mörsunum!

Lúðrasveitin Svanur & Lúðrasveit Hafnarfjarðar

Fyrsta æfing vetrarins

Fyrsta æfing Lúðrasveitar Hafnarfjarðar veturinn 2012-13 verður haldin í Tónkvísl mánudaginn 10. september klukkan 20. Nú er því orðið tímabært að leita að lúðrinum og rifja upp gripin.