Jólin koma

Jólin eru handan við hornið og brassdeild Lúðrasveitarinnar sér um að koma Hafnfirðingum og nærsveitungum í jólaskap fyrstu helgina í desember.

Föstudaginn 30. nóvember verður Jólaþorpið opnað á Thorsplani í Hafnarfirði og kveikt á ljósunum á jólatrénu frá Cuxhaven. Lúðrasveitin leikur nokkur létt jólalög kl. 18:00. Nánari dagskrá má nálgast á vef Hafnarfjarðarbæjar og á Facebook.

Laugardaginn 1. desember klukkan 17:00 verða ljósin tendruð á Hamborgartrénu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Þar verða leikin nokkur vinsæl þýsk jólalög fyrir athöfnina og á milli ræðuhalda.

Sunnudaginn 2. desember klukkan 12:00 koma svo nokkrir félagar úr Lúðrasveitinni fram á jóladagskrá í Hafnarborg. Dagskráin er skipulögð af Fjarðarpóstinum og Hafnarfjarðarbæ og má fylgjast með henni í beinni útsendingu á Facebook-síðum skipuleggjenda.

Hausttónleikar lúðrasveitarinnar

Hausttónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju fyrsta vetrardag, laugardaginn 27. október kl. 14:00.

Á efnisskránni eru verk Leonards Bernstein áberandi, en um þessar mundir eru 100 ár liðin frá fæðingu hans. Básúnu- og klarinettudeildirnar munu fá að sýna hvað í þeim býr í Sweet trombone rag eftir Al Sweet og Pie in the face polka eftir Henri Mancini. Einnig verður flutt Svíta fyrir lúðrasveit eftir Gustav Holst, vel valdir marsar og fleira.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Almennt miðaverð á tónleikana er 1500 krónur. Miða má nálgast í forsölu hjá lúðrasveitarfélögum og við innganginn fyrir tónleikana.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Augustiner-bjórgarðinum
Þessi föngulegi hópur verður á tónleikum 27. október kl. 14:00.

Októberfest Lúðrasveitarinnar

Komið er að hinu árlega Októberfesti Lúðrasveitar Hafnarfjarðar. Það verður haldið laugardaginn 6. október, á Fjörukránni í Hafnarfirði. Talið verður í fyrsta lagið klukkan 21:00.

Fluttir verða valdir slagarar úr hinni víðfrægu grænu möppu LH, en hún geymir það allra besta í þýskri bjórtónlist auk íslenskra gullmola í svipuðum stíl. Hér er einstakt tækifæri til að heyra tónlistina sem spiluð er á Oktoberfest í München ár hvert.

Stórsöngvarinn Örvar Már Kristinsson mætir á svæðið og syngur nokkur lög með okkur.

Aðgangur er ókeypis.

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn er í dag. Að venju tekur Lúðrasveitin þátt í hátíðahöldum dagsins í Hafnarfirði.

Klukkan 10:00 verður spilað fyrir íbúa og gesti Hrafnistu í Hafnarfirði.

Klukkan 13:50 verður svo leikið við hátíðahöld við Flensborgarhöfn, m.a. við heiðrun sjómanna.

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá sjómannadagsins nánar á vef Hafnarfjarðarbæjar.

Vortónleikar lúðrasveitarinnar

Vortónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju á þriðja degi sumars; laugardaginn 21. apríl kl. 14:00.

Á efnisskránni eru mestanpart verk samin fyrir lúðrasveit, sum gömul en önnur glæný. Meðal annars verður þar að finna marsa eftir John Philip Sousa og Johannes Hansen, og nýleg verk eftir Robert Buckley, Dana Wilson og James Curnow.

Á tónleikunum munu tveir félagar úr lúðrasveitinni leika einleik; Helena Guðjónsdóttir á þverflautu og Kristinn Svavarsson á altsaxófón.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 1500 krónur. Miða má kaupa í forsölu hjá lúðrasveitarfélögum fram að tónleikadegi eða við innganginn.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Augustiner-bjórgarðinum
Lúðrasveit Hafnarfjarðar að loknum tónleikum í Augustiner bjórgarðinum.

Hausttónleikar LH, Flensborgarkórsins og Kórs Flensborgarskólans

Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Flensborgarkórinn og Kór Flensborgarskólans halda sameiginlega hausttónleika laugardaginn 25. nóvember kl. 14:00. Tónleikarnir verða haldnir í nýju húsnæði Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, Hvaleyrarbraut 32, gengið inn frá Lónsbraut. (Hér má sjá staðinn á korti).

Tónlist úr kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tölvuleikjum verður fyrirferðarmikil á efnisskránni, meðal annars úr Söngvaseiði, Amistad, Stjörnustríði og Harry Potter – ýmist flutt af lúðrasveitinni, kórunum eða öllum saman.

Stjórnendur á tónleikunum eru Hrafnhildur Blomsterberg og Rúnar Óskarsson.

Almennt miðaverð er 2000 kr. en 1000 kr. fyrir börn 12 ára og yngri. Vegna takmarkaðs sætaframboðs er best að nálgast miða í forsölu hjá félögum kóranna eða lúðrasveitarinnar.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Flensborgarkórinn og Kór Flensborgarskólans
Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Flensborgarkórinn og Kór Flensborgarskólans