Vortónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar

Lúðrasveit Hafnarfjarðar að loknum tónleikum í Augustiner-garðinum í München í júní 2023.
Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Augustiner-garðinum í München í júní 2023.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar blæs til vortónleika laugardaginn 20. apríl næstkomandi. Tónleikarnir verða haldnir í Víðistaðakirkju og hefjast þeir kl. 14:00.

Á efnisskránni verður tónlist úr ýmsum áttum: íslensk lög, dixieland, marsar og kvikmyndatónlist. Fluttar verða nýjar útsetningar Rúnars Óskarssonar og Eiríks Rafns Stefánssonar á íslenskum slögurum úr smiðjum Stuðmanna og Magnúsar Eiríkssonar, og Kristín Þóra Pétursdóttir leikur einleik í Clarinet on the Town eftir Ralph Hermann.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Almennt miðaverð er 2500 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir 16 ára og yngri. Miða má nálgast í forsölu hjá lúðrasveitarfélögum fram að tónleikadegi og við innganginn þegar þar að kemur. Rétt er að benda á að ekki verður posi við innganginn.

Viðburður fyrir tónleikana á Facebook.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Norðurljósum

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Desenzano á Ítalíu í júní 2019
Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur vortónleika í Norðurljósum, Hörpu, 10. mars kl. 20:00. Á efnisskránni verður tónlist úr ýmsum áttum: sömbur, marsar og kvikmyndatónlist.

Frumflutt verður glænýtt verk, Reworks, sem Finnur Karlsson samdi fyrir sveitina. Eiríkur Rafn Stefánsson blæs flygilhornsóló í Big blue eyes eftir Per-Olof Ukkonen. Einnig verður leikinn Tjarnarmars í minningu Páls Pampichlers Pálssonar sem lést fyrr á árinu.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 2500 kr. Hægt er að kaupa miða á tix.is.

Viðburður fyrir tónleikana á Facebook.

Kvikmyndatónlist í Víðistaðakirkju

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Desenzano á Ítalíu í júní 2019

Lúðrasveit Hafnarfjarðar blæs til vortónleika laugardaginn 7. maí næstkomandi. Tónleikarnir verða haldnir í Víðistaðakirkju og hefjast þeir kl. 14:00.

Á efnisskránni er eingöngu tónlist úr kvikmyndum, m.a. eftir Stephen Sondheim, John Williams, Alan Menken og Jim Henson. Kristinn Svavarsson blæs sóló á altsaxófón í Smile eftir Charlie Chaplin.

Meðal annars mun hljóma tónlist úr myndunum Into the woods, Indiana Jones, Harry Potter, Aladdín, Star Wars, Guðföðurnum og úr nokkrum völdum James Bond myndum.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Almennt miðaverð er 2000 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir 16 ára og yngri. Miða má nálgast í forsölu hjá lúðrasveitarfélögum fram að tónleikadegi og við innganginn þegar þar að kemur. Rétt er að benda á að ekki verður posi við innganginn.

Hausttónleikar 2019

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Desenzano á Ítalíu í júní 2019

Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur sína árlegu hausttónleika í Víðistaðakirkju laugardaginn 30. nóvember kl. 14:00.

Á efnisskránni verða lög úr ýmsum áttum. Farið verður á sannkallað heimshornaflakk; meðal annars verður staldrað við á Írlandi, Ísrael og Ítalíu. Auk annarra verka verða leikin Soferska eftir Bosníska tónskáldið Goran Bregovic, stef úr Paradísarbíóinu (Cinema Paradiso) eftir Ennio Morricone og syrpa af lögum eftir Benny Goodman. Góðkunningjar Lúðrasveitarinnar, John Philip Sousa og Philip Sparke verða heldur ekki langt undan.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Almennt miðaverð er 2000 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir 16 ára og yngri. Miða má nálgast í forsölu hjá lúðrasveitarfélögum fram að tónleikadegi og við innganginn þegar þar að kemur.

Hæ, hó, jibbí-jey!

Það er kominn sautjándi júní!

Þjóðhátíðardagurinn er einn af föstum punktum Lúðrasveitarinnar ár hvert og í ár verður ekki gerð nein undantekning.

Klukkan 12:45 verður safnast saman fyrir utan Flensborgarskólann. Skrúðganga leggur svo af stað frá skólanum klukkan 13:00. Gengið verður niður Hringbraut, eftir Lækjargötu og inn Strandgötu að Thorsplani.

Að göngu lokinni, eða um kl. 14:00, heldur Lúðrasveitin svo tónleika fyrir utan Hafnarborg.

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá þjóðhátíðarhalda í Hafnarfirði á vef bæjarins.

Pollalúðrapönk

Pollalúðrapönk. Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Pollapönk og Kór Öldutúnsskóla

Þrjár hafnfirskar menningarstofnanir; Pollapönk, Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Kór Öldutúnsskóla leiða saman hesta sína á stórtónleikum í Íþróttahúsinu við Strandgötu laugardaginn 16. febrúar 2019 kl. 14:00. Sambræðingur þessara ólíku hópa verður án efa gríðarlega spennandi en á efnisskránni verður úrval laga Pollapönkaranna í splúnkunýjum útsetningum.

Pollapönk þarf varla að kynna. Þeir eru Hafnfirðingar í húð og hár og voru brautryðjendur í að semja og leika íslenska rokktónlist fyrir sem var sérsniðin fyrir börn. Þeirra frægasta lag er án efa Enga fordóma sem þeir fluttu fyrir hönd Íslands í Eurovision 2014.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar var stofnuð í janúar 1950 og er því komin fast að sjötugu. Sveitina skipa um 40 blásarar og slagverksmenn. Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Á þeim rúmlega fimmtíu árum sem Kór Öldutúnsskóla hefur starfað, hafa þúsundir hafnfirskra barna tekið þátt í kórstarfinu og notið leiðsagnar í söng og tónlistarflutningi. Kórinn skipa nú um 100 börn. Stjórnandi Kórs Öldutúnsskóla er Brynhildur Auðbjargardóttir.

Fullt miðaverð er 2500 kr. Börn á aldrinum 7-16 ára greiða 1500 kr., en ókeypis er fyrir börn yngri en 7 ára í fylgd með fullorðnum.
Athugið að allir tónleikagestir þurfa að framvísa miðum, líka ung börn.

Miðasala fer fram á Miði.is.

Viðburðurinn á Facebook.