Skrúðganga á 17. júní

Lúðrasveit Hafnarfjarðar verður að vanda í broddi fylkingar í skrúðgöngunni á Þjóðhátíðardaginn, auk þess að spila í hátíðarstundinni á Hamrinum fyrir göngu.

Að skrúðgöngunni lokinni ætlar lúðrasveitin svo að halda örtónleika á nokkrum stöðum í miðbænum og æfa í leiðinni fyrir tónleikaferð sveitarinnar um Niðurlönd, sem hefst að morgni 18. júní.

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur 1. júní næstkomandi. Þá spilar Lúðrasveit Hafnarfjarðar að vanda við Hrafnistu kl. 10 og í hátíðardagskránni við Kænuna kl. 13:45.

LH í Kaplakrika

Sunnudaginn 18. maí mun lúðrasveitin spila við opnun nýs íþróttahúss í Kaplakrika.

Fyrst verður spilað á milli kl. 11:30 og 12:00 og aftur frá 12:45 til 13:00.

Mæting er í Kaplakrika kl. 11:15, í fullum fjólubláum skrúða og nýpússuðum svörtum spariskóm. Farið er inn um aðalinnganginn. Svo er farið niður tröppur og út í nýja frjálsíþróttahúsið þar sem opnunarathöfnin fer fram.

Holland heillar

Æfingar eru nú hafnar af fullum krafti fyrir stóru Hollandsferðina, en lúðrasveitin mun dvelja við leik og störf í Amersfoort í Hollandi dagana 18. til 25. júní.

Áður en að því kemur mun sveitin þó taka þátt í hátíðahöldum sjómannadagsins og 17. júní.

Kröfuganga 1. maí

Lúðrasveitin leikur að vanda í kröfugöngu verkalýðsfélaganna á Verkalýðsdaginn 1. maí. Gangan leggur af stað frá Bæjarbíói kl. 14 en lúðrasveitin leikur nokkur lög meðan göngumenn safnast saman.

Mæting er í Tónkvísl kl. 13, í fullum fjólubláum skrúða, svörtum sokkum og nýpússuðum svörtum spariskóm. Okkar hlutverki verður lokið um kl. 14:30.

Lúðraþytur í Hörpu

Lúðrasveit Hafnarfjarðar heldur tónleika í Norðurljósum, Hörpu þriðjudaginn 18. mars kl. 20:00.

Þetta eru fimmtu og síðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni Lúðraþytur í Hörpu, sem lúðrasveitir af suðvesturhorni landsins hafa staðið fyrir í vetur. Lúðrasveitin verður ekki ein á ferð, því hún hefur fengið Flensborgarkórinn til liðs við sig, undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg, og mun kórinn syngja nokkur lög með lúðrasveitinni.

Á efnisskrá tónleikanna verða nýleg lúðrasveitaverk fyrirferðarmikil. Má þar meðal annars nefna verkin Suite Arktica II eftir Pál Pampichler Pálsson og Sleep eftir Eric Whitacre. Einnig verða leiknir hefðbundnir Sousa-marsar.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 2000 krónur. Miða á tónleikana má kaupa á vefsíðunni miði.is og á heimasíðu Hörpu.