Sjómannadagurinn

Að vanda mun lúðrasveitin halda uppi stuðinu á Sjómannadaginn, sunnudaginn 2. júní. Við spilum ættjarðarlög við Hrafnistu klukkan 10 og við höfnina frá klukkan 13:45, þegar aldnir sjómenn verða heiðraðir.

Mæting: kl. 9:45 við Hrafnistu og kl. 13:30 við Kænuna.

Klæðnaður í bæði skiptin: Fjólublái búningurinn með viðeigandi hatti, svartir sokkar og svartir nýpússaðir spariskór. Þeir sem ekki geta bjargað sér um búning mæti í svörtum sparibuxum!

Æfing og búningamátun verður haldin í Tónkvísl mánudaginn 27. maí klukkan 20. Þeir sem eru með búning heima en geta ekki spilað með mega gjarna lána hann þurfandi.

Kröfuganga 1. maí

Lúðrasveitin spilar að vanda í kröfugöngu á Verkalýðsdaginn 1. maí. Spilamennskan verður með hefðbundnu sniði, við mætum í Tónkvísl 13:00, byrjum að spila 13:40 fyrir utan Súfistann og gangan hefst 14:00.

Við verðum í lúðrasveitarúlpunum, með kaskeitin, í svörtum sparibuxum, svörtum sokkum og nýpússuðum svörtum spariskóm. Munið, svartir íþróttaskór teljast ekki spariskór!

Jólatrén í bænum

Laugardaginn 24. nóvember verða ljósin tendruð á Frederiksbergstrénu á Thorsplani kl. 17. Lúðrasveitin spilar að vanda við tendrunina, og byrjar að spila kl. 16:45. Þar sem spáir frekar köldu munu málmblásararnir sjá um þetta en tré- og slagverksleikarar fá frí.

Klæðnaður er að sjálfsögðu fjólublái búningurinn (föðurlandið innanundir) og svartir pússaðir skór. Mæting er í Tónkvísl kl. 16:15, þeir sem vantar búning mæti klukkan 16:00.

Kveikt verður á Cuxhaventrénu við Flensborgarbryggju viku síðar, laugardaginn 1. desember kl. 15:00. Þar sem þetta er tónleikadagurinn okkar munu aðeins 5-6 málmblásarar leika jólalög frá kl. 14:45.

Lúðrasveitin Svanur og Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Hörpu

Ágætu marsaunnendur og aðrir smekksmenn og konur á góða tónlist!

Næstkomandi laugardag, þann 27. október, munu Lúðrasveitin Svanur og Lúðrasveit Hafnarfjarðar leiða saman hesta sína og halda tónleika í Hörpu þar sem takfesta, tónfrelsi og taumlaus orka í tveimur fjórðu ráða ferðinni. Talið verður í kl. 16 og er aðgangur ókeypis.

Leiknir verða hefðbundnir marsar af hefðbundinni snilld í bland við þjóðlagatónlist hinna ýmsu landa fyrr og nú, allt frá dillandi Klezmertónum til séríslenskra þjóðlaga úr kvæðasafni Stuðmanna. Einnig munu stjórnendur hvorrar hljómsveitar um sig, Brjánn Ingason og Rúnar Óskarsson, leika einleik á fagott og klarinett, svo það verður úr nógu að velja á þessu hlaðborði góðrar tónlistar sem uppá verður boðið.

Tónleikarnir munu fara fram í Hörpuhorninu svokallaða á 2. hæð hússins, og eins og fram kom hér að ofan verður blásið til leiks kl. 16. Aðgangur er ókeypis og allir boðnir hjartanlega velkomnir.

Misstu ekki af mörsunum!

Lúðrasveitin Svanur & Lúðrasveit Hafnarfjarðar

17. júní

Næstkomandi sunnudag, 17. júní, spilar lúðrasveitin í skrúðgöngu eins og vant er. Endanleg dagskrá hefur enn ekki borist frá bænum, en skrúðgangan verður í það minnsta á sínum stað. Væntanlega byrjum við að spila í Hellisgerði um kl. 13:15 og gangan ætti að hefjast um kl. 14.
Mæting er í Tónkvísl kl. 12:30, í fjólubláa búningnum, svörtum sokkum og nýpússuðum spariskóm. Þeir sem ekki eru með búning þurfa að mæta tímanlega til að máta búning, en ættu að vera í svörtum sparibuxum til öryggis. Eitthvað er til af lýrum á staðnum en best er að allir komi með nothæfa lýru með sér. Þær fást t.d. í Tónastöðinni.
Líklega spilum við ekki um kvöldið, það kemst þó vonandi á hreint á næstu dögum.

Kröfuganga á 1. maí

Í dag er fyrsti maí um land allt og lúðrasveitin spilar að sjálfsögðu í kröfugöngunni.
Mæting er í Tónkvísl klukkan 13:00 í svörtum buxum, svörtum sokkum og vel pússuðum spariskóm. Úlpur verða á staðnum. Kröfugangan leggur af stað frá Ráðhústorginu kl. 14:00 en lúðrasveitin spilar meðan fólk safnast saman, frá kl. 13:40.