Hæ, hó, jibbí-jey!

Það er kominn sautjándi júní!

Þjóðhátíðardagurinn er einn af föstum punktum Lúðrasveitarinnar ár hvert og í ár verður ekki gerð nein undantekning.

Klukkan 12:45 verður safnast saman fyrir utan Flensborgarskólann. Skrúðganga leggur svo af stað frá skólanum klukkan 13:00. Gengið verður niður Hringbraut, eftir Lækjargötu og inn Strandgötu að Thorsplani.

Að göngu lokinni, eða um kl. 14:00, heldur Lúðrasveitin svo tónleika fyrir utan Hafnarborg.

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá þjóðhátíðarhalda í Hafnarfirði á vef bæjarins.

Vortónleikar Lúðrasveitarinnar

Vortónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju miðvikudaginn 5. júní kl. 20:00.

Á efnisskránni verða lög úr ýmsum áttum; marsar, kvikmyndatónlist, djass og fleira. Meðal annars verður leikinn Tjarnarmars Páls Pampichlers, svo og tónlist eftir Henri Mancini úr kvikmyndunum The great race og Breakfast at Tiffany‘s – en Kristinn Svavarsson mun stíga fram og blása sóló í laginu Moon river úr síðarnefndu myndinni. Einnig verður flutt tónlist eftir Philip Sparke, Jan van der Roost, Duke Ellington og fleiri.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Miðaverð er 1500 krónur, en aðgangur er ókeypis fyrir 16 ára og yngri. Miða má nálgast í forsölu hjá lúðrasveitarfélögum fram að tónleikadegi og við innganginn þegar þar að kemur.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Augustiner-garðinum í München.

Pollalúðrapönk

Pollalúðrapönk. Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Pollapönk og Kór Öldutúnsskóla

Þrjár hafnfirskar menningarstofnanir; Pollapönk, Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Kór Öldutúnsskóla leiða saman hesta sína á stórtónleikum í Íþróttahúsinu við Strandgötu laugardaginn 16. febrúar 2019 kl. 14:00. Sambræðingur þessara ólíku hópa verður án efa gríðarlega spennandi en á efnisskránni verður úrval laga Pollapönkaranna í splúnkunýjum útsetningum.

Pollapönk þarf varla að kynna. Þeir eru Hafnfirðingar í húð og hár og voru brautryðjendur í að semja og leika íslenska rokktónlist fyrir sem var sérsniðin fyrir börn. Þeirra frægasta lag er án efa Enga fordóma sem þeir fluttu fyrir hönd Íslands í Eurovision 2014.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar var stofnuð í janúar 1950 og er því komin fast að sjötugu. Sveitina skipa um 40 blásarar og slagverksmenn. Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Á þeim rúmlega fimmtíu árum sem Kór Öldutúnsskóla hefur starfað, hafa þúsundir hafnfirskra barna tekið þátt í kórstarfinu og notið leiðsagnar í söng og tónlistarflutningi. Kórinn skipa nú um 100 börn. Stjórnandi Kórs Öldutúnsskóla er Brynhildur Auðbjargardóttir.

Fullt miðaverð er 2500 kr. Börn á aldrinum 7-16 ára greiða 1500 kr., en ókeypis er fyrir börn yngri en 7 ára í fylgd með fullorðnum.
Athugið að allir tónleikagestir þurfa að framvísa miðum, líka ung börn.

Miðasala fer fram á Miði.is.

Viðburðurinn á Facebook.

Verkefnin framundan

Nú standa yfir æfingar og undirbúningur fyrir næstu tónleika lúðrasveitarinnar.

Þeir verða haldnir 16. febrúar og hefur lúðrasveitin fengið til liðs við sig Kór Öldutúnsskóla og Pollapönk til að vera með á tónleikunum.

Nánari upplýsingar verða birtar í fyllingu tímans. Fylgjast má með framvindu mála hér á vefnum og á Facebook-síðu lúðrasveitarinnar

Jólin koma

Jólin eru handan við hornið og brassdeild Lúðrasveitarinnar sér um að koma Hafnfirðingum og nærsveitungum í jólaskap fyrstu helgina í desember.

Föstudaginn 30. nóvember verður Jólaþorpið opnað á Thorsplani í Hafnarfirði og kveikt á ljósunum á jólatrénu frá Cuxhaven. Lúðrasveitin leikur nokkur létt jólalög kl. 18:00. Nánari dagskrá má nálgast á vef Hafnarfjarðarbæjar og á Facebook.

Laugardaginn 1. desember klukkan 17:00 verða ljósin tendruð á Hamborgartrénu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Þar verða leikin nokkur vinsæl þýsk jólalög fyrir athöfnina og á milli ræðuhalda.

Sunnudaginn 2. desember klukkan 12:00 koma svo nokkrir félagar úr Lúðrasveitinni fram á jóladagskrá í Hafnarborg. Dagskráin er skipulögð af Fjarðarpóstinum og Hafnarfjarðarbæ og má fylgjast með henni í beinni útsendingu á Facebook-síðum skipuleggjenda.

Hausttónleikar lúðrasveitarinnar

Hausttónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar verða haldnir í Víðistaðakirkju fyrsta vetrardag, laugardaginn 27. október kl. 14:00.

Á efnisskránni eru verk Leonards Bernstein áberandi, en um þessar mundir eru 100 ár liðin frá fæðingu hans. Básúnu- og klarinettudeildirnar munu fá að sýna hvað í þeim býr í Sweet trombone rag eftir Al Sweet og Pie in the face polka eftir Henri Mancini. Einnig verður flutt Svíta fyrir lúðrasveit eftir Gustav Holst, vel valdir marsar og fleira.

Stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar er Rúnar Óskarsson.

Almennt miðaverð á tónleikana er 1500 krónur. Miða má nálgast í forsölu hjá lúðrasveitarfélögum og við innganginn fyrir tónleikana.

Lúðrasveit Hafnarfjarðar í Augustiner-bjórgarðinum
Þessi föngulegi hópur verður á tónleikum 27. október kl. 14:00.